SPURT OG SVARAÐ

Hér að neðan eru svör við helstu spurningum sem hafa borist skólanum.

Er hægt að komast í Verzló eftir að hafa verið eitt ár í öðrum skóla?

SVAR: Já, það eru fordæmi fyrir því, að settum ákveðnum skilyrðum. Gott er að setja sig í samband við námsráðgjafa VÍ varðandi frekari upplýsingar.
 

Hver var meðaleinkunnin inn í Verzló í ár?

SVAR: Meðaleinkunnin er breytileg milli ára.

Þegar valið er inn í skólann, skoðið þið þá mætingareinkunnina?

SVAR: Í inntökuferlinu er fyrst og fremst verið að skoða einkunnir en það hefur gerst að ef val stendur á milli tveggja jafnhæfra umsækjenda eru aðrir þættir skoðaðir eins og t.d. mætingareinkunnin.

Ef maður fer utan sem skiptinemi á öðru ári er hægt að ná því upp með fjarnámi

SVAR: Með mjög góðu skipulagi gæti það vel gengið upp. Krakkarnir sem hafa farið út í 1/2 ár hafa gjarnan gert þetta, þ.e. tekið hluta námsins í fjarnámi svo þeir missi ekki af sínum árgangi - en hinir sem hafa farið í eitt ár seinka sér gjarnan um eitt skólaár. Annars er hver nemandi skoðaður sérstaklega.

Hvað sækja margir um að komast í skólann og hvað komast margir að?

SVAR: Fjöldi umsækjenda er breytilegur á milli ára en við tökum á móti 280 nýnemum í ár.

Þegar þið veljið nemendur inn í skólann, lítið þið þá á einkunnir úr valfögum eins og íþróttafræði, spænsku og fleiru?

Svar: Sjá inntökuskilyrði.

Ef ég er í tónlistarnámi, get ég fengið það metið?

Svar: Nemendur geta fengið nám sem er viðurkennt af Menntamálaráðuneytinu metið til eininga í vali, s.s. tónlistarnám eða listdansnám. Nemandi þarf þá að hafa lokið ákveðnum stigum og þarf að skila inn gögnum þess efnis.

Ef nemendi æfir einhverja íþrótt getur hann fengið hana metna í staðinn fyrir leikfimi?

Svar: Nei, það eru engar undantekningar veittar frá leikfimi vegna íþróttaiðkunar. Það mæta allir nemendur í leikfimi, óháð því hvað þeir æfa utan skólatíma.

Ég var að velta fyrir mér hvað þið gerið við nemendur sem hafa lokið áföngum í framhaldsskóla, áfangakerfi, meðan þeir eru í 10. bekk. Er það metið á einhvern hátt t.d. með því að þau sleppi tímum í viðkomandi grein eða fara þau í sama nám og hinir?

Svar: Já, við metum áfanga úr framhaldsskóla ef nemandi er með 7 eða yfir, nema í stærðfræði þar þurfa nemendur að taka stöðupróf hér í VÍ. Nemandi sem fær áfanga metinn flýtir þó ekki fyrir sér í námi þar sem við erum bekkjarskóli, viðkomandi er þá einfaldlega í eyðu þegar fagið er kennt hjá bekknum.

Er fjarnám metið?

Svar: Til þess að fá áfanga metna hjá okkur þarf nemandi að hafa tekið áfangann í framhaldsskóla, með lokaeinkunn 7 eða yfir. Undantekning frá þessu er stærðfræði þar sem nemendur þurfa að taka stöðupróf hér að hausti þrátt fyrir að hafa lokið framhaldsskólaáfanga úr öðrum skóla en Verzlunarskólanum. Allt nám sem nemendur taka í fjarnámi Verzlunarskólans er að sjálfsögðu metið þótt einkunnin sé ekki 7.

Þarf að senda einkunnir til skólans eða sendast þær sjálfkrafa?

Svar: Einkunnir sendast sjálfkrafa til skólans frá nemendum sem koma beint úr 10. bekk. Aðrir þurfa að koma sjálfir með afrit af einkunnum þegar sótt er um skólavist.

Takið þið inn nemendur sem hafa búið erlendis og eru ekki með skólaeinkunnir úr 10. bekk?

Svar: Nemandi sem kemur erlendis frá er skoðaður sérstaklega. Gott er að snúa sér til námsráðgjafa varðandi frekari upplýsingar um þetta.

Er auðvelt að tengja fartölvu við rafmagn í skólastofum?

Svar: Já, í kennslustofunum eru margar innstungur og alltaf hægt að fá fjöltengi hjá húsverði ef þörf er á.

Er svolítið mikið snobb í Verzló? einhverjir krakkar með frekju og yfirgang o.s.frv.?

SVAR: Það er ekki gott að svara því nákvæmlega hvort hér fyrirfinnist snobb. Líkast til gæti einhverjum fundist þeir finna fyrir snobbi hér á meðan aðrir myndu þvertaka fyrir það. Það er ómögulegt að segja til um svona lagað. Það er erfitt að segja til með yfirgang og frekju ungmenna en sem betur fer er yfirgnæfandi meirihluti Verzlinga yndælis fólk sem gaman er að umgangast.

Getur maður tekið sænsku í staðinn fyrir dönsku? Það er að segja ef að maður hefur aldrei verið í dönsku í grunnskóla?

SVAR: Já það er hægt að fara í sænsku í MH og fá hana metna inn í skólann. Það eru margir nemendur okkar sem fara ýmist í sænsku eða norsku í stað dönsku.

Er aðstaða til líkamsræktar í skólanum?

SVAR: Já, það er mjög góð aðstaða til líkamsræktar í skólanum. Sú aðstaða er fyrst og fremst ætluð nemendum á skólatíma.

Hver eru inntökuskilyrðin í skólann?

Svar: Tvöfalt vægi á íslensku og stærðfræði og tvær hæstu af ensku, dönsku, samfélagsfræði og/eða náttúrufræði reiknað saman og fundið meðaltal.

Eru sömu inntökuskilyrði inn á allar brautir?

Svar: Já.

Hver eru skólagjöldin?

Svar: Skólagjöldin skólaárið 2017-2018 fyrir þriggja ára námið eru 169.000 kr. en 127.000 kr. fyrir fjögurra ára námið. Til viðbótar eru 7.000 kr. í nemendafélagsgjöld. Skólagjöld eru ekki endurgreidd.

2017 Verzlunarskóli Íslands

Hannað og framleitt af IRIS